Öryrkjar – Ef ég væri ríkur

Hvar endar þetta? Hverjir geta synt í land? Ekki gamla fólkið og öryrkjarnir. En auðvitað bankarnir og peningamennirnir. Þessar spurningar velta bara upp hjá mér, sérstaklega þegar ég les í blöðum að bankarnir eru að tryggja sig gegn falli íslensku krónunnar, kaupandi evrur.

En hvaða leið höfum við öryrkjarnir og námsmennirnir sem búum erlendis til að mæta þessari tekjuskerðingu á örorkulífeyri og námslánum? Við hljótum að eiga massa af varasjóðum sem við getum sótt þessa skerðingu í, eða keypt evrur. Þetta nær engri átt í hvað allt virðist stefna sem snýr að lægst launaða fólkinu, ég allavega sit með tár í augum við að sjá að skerðingin á árinu 2006 hjá mér hljóðar upp á u.þ.b. 120.000 ísl. kr. Allt út af gengi íslensku krónunnar. Eflaust finnst mörgum þetta ekki stór upphæð, en hjá mér sem öryrkja setur þetta stórt strik í reikninginn. Ég þori ekki einu sinni að reikna út varðandi maka, sem var svo óheppinn að slasast og hefur verið sjúkraskrifaður í sjö mánuði, svo að tekjuáætlun, sem tekjutengist mínum lífeyri, kemur út sem mikil launahækkun þrátt fyrir að sjúkrabætur séu langt frá því sama og launatekjur. Og líka það sem hefur verið að gerast með lífeyrissjóðina. Ég alla vega sit hér í spennu hvern mánuð yfir því hvað verði skert hjá mér núna, – þeir telja mig svo heppna að hafa langt innan við 100.000 þúsund á mánuði. Og svo voga lífeyrissjóðirnir sér að miða við tekjur í þrjú ár áður en ég var dæmd öryrki. Þetta er nokkuð sem er brýn þörf á að skoða (ráðherrar). Ég vann einungis hlutastörf í sex ár eftir að ég slasaðist, svo ég tel að útreikningur, til viðmiðunar á útgreiddum lífeyri lífeyrissjóðana til öryrkja, eigi að miðast við tímann fyrir slys eða sjúkdóma. En mér skildist á starfsmanni eins lífeyrissjóðsins að ríkistjórnin hefði samþykkt þessa breytingu lífeyrissjóðana. Ef svo er, var þetta skoðað í botn?

Ég veit ekki hvar þetta endar fyrir mig, ég er löngu búin að gefast upp og það virðist vera það sem er ætlunin. Jú, ég fékk smátíma til að vera aðeins bjartsýnni á framtíðina, fyrst eftir að ég flutti til Danmerkur til að flýja örbirgðina á "klakanum", til að reyna að komast betur af en mér tókst á Íslandi. Þetta hefur verið að versna og versna hægt og sígandi. Ég get ekki litið á þetta nema með því móti að líkja þessu við þrælahald. Ég er föst, get mig ekki hreyft, veit bara ekki hvað ég á að gera. Hugsunin hjá mér fer alltaf inn á: Af hverju get ég ekki farið að vinna og bjargað þessu? En það er ekki lausn, ég myndi enda í rúminu fljótt og örugglega. Kannski er það planið hjá þessum blessuðum ráðamönnum þjóðarinar; þeir vilja að ég og við ellilífeyrisþegar og öryrkjar drögum bara sæng yfir höfuð og fyllum okkur af róandi og kvíðastillandi lyfjum. Eða að þetta gangi af okkur dauðum, af því að við getum aldrei vitað hvað verður skert næst eða hverju breytt. Það væri kannski lausn að þeir færu pínulítið að kyngja stoltinu og sjá hvernig aðrar Norðurlandaþjóðir fara að því að halda meira jafnvægi í sínum löndum. Kannski ættum við öryrkjarnir að taka okkur saman um hópferð til Taílands, mér skilst að við kæmumst af þar á þessum tekjum. Þó svo að íslenska krónan myndi falla þó nokkuð meira. En æ æ, er ekki eitthvað svoleiðis að við megum ekki búa utan EES? Jú, ég held það sé enn ein klausan í reglusafninu.

Ein vonlaus í Danmörku.

SIGRÍÐUR RAGNARSDÓTTIR,

öryrki.

Frá Sigríði Ragnarsdóttur:


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Unnar Geirdal

Ég skil ekki, ertu að skjóta á núverandi ríkisstjórn á einhvern hátt ? Því ef svo er, þá vil ég minna þig á að þeir lækkuðu nú skattana hjá þeim allra tekjuhæstu svo þeir geta ekki verið alslæmir.

 Hah, en já rakst á þessa grein hjá þér.

Las og fylltist sorg yfir ástandinu og skerðingunni sem þú hefur orðið fyrir.  En svona er lífið og eina sem maður getur gert er að setja x-ið á réttann stað í kosningunum og vonað það besta.

Gangi þér vel með allt, farvel. 

Unnar Geirdal, 5.4.2007 kl. 01:33

2 identicon

Eg verð nú reíð og sorgmædd þegar ég les og heyri, "Svona er lífið". Það á ekki að vera svona.

Þú Unnar Geirdal, ert sennilega ekki öryrki.

Ég er það, og þessi grein er eins og ég hefði samið hana. og sennilega er ég eldri en höfundurinn. og man eftir ríkisstjórnum frá öðrum flokkum, en eru við völd núna. Og líka borgarstjórnum. Því öryrkja þigga líka þjónustu borgarinnar (sveitarfélaga) sem ekki hefur verið neitt að hugsa um aldraða og öryrkja. þar hafa aðrir flokkar komið við sögu. Þangað til núna þetta síðasta ár.

Nei, að krossa við einhver flokk, er ekkert samasem merki við bætt kjör hjá okkur. Það verður að vinnast með áliti og uppreisn allrar þjóðarinnar, eins og núna er að gerast í sambandi við að stöðve stóriðju í nokkur ár, a.m.k.

En ég hef ekki ennþá séð að almenningi finnist að foreldrar þeirra eða afar og ömmur búi við aðstæður sem þeir sjálfir mundu ekki láta bjóða sér. Og enginn heilbrigður maður, getur eða vill setja sig í spor öryrkjar.

Sumir segja jafnvel, að þetta sé bara aumingjaskapur eða leti. en enginn segist geta lifað af þessum bótum

Afhverju eigum við að geta það?

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 11:54

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Frábær grein. Um að gera að skrifa nógu mikið svo fólk byrji að skilja, þannig breytist vonandi ástandið. Um að gera að vera með aðhald að því fólki sem stjórnar, þeir eiga nefnilega til að þjóna og umgangast þá sem þegar hafa það best.

Ólafur Þórðarson, 6.4.2007 kl. 13:17

4 Smámynd: Guðjón Guðvarðarson

Mjög góð grein,  mundi vilja vita af henni á borði félagsmálaráðherra. 

Skora á þig að senda hana,  með því viðhengi að skorað hafi verið á þig.

Umfram allt halda í baráttuviljann. 

Guðjón Guðvarðarson, 6.4.2007 kl. 23:18

5 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Gott fólk

Hvernig væri að berjast fyrir tækifærum öryrkja. Hvers vegna er söngurinn alltaf fyrir bótum og styrkjum...

Hver er með á stefnuskrá að auka möguleika öryrkja á vinnumarkaði? Hver er með það á stefnuskrá sinni að bæta endurhæfingarúrræði öryrkja?

Það skal engan undra að fólk hafi neikvæða mynd af Öryrkjum vegna þess grátkórs að halda í það sem er, og leggja lítið af mörkum. Það er ekkiert Cool að vera öryrki en það er verulega svalt að vera endurhæfður öryrki í starfi við hæfi.

það eina sem ég tek undir er það að bætur eiga ekki að skerða tilraunir manna að komast út úr kerfinu.

Eiríkur

Baráttumaður fyrir tækifærum Öryrkja.

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 12.4.2007 kl. 11:56

6 Smámynd: Sigríður Ragnarsdóttir

Sæll og blessaður Eiríkur,

Er algjörlega sammála með að berjast fyrir tækifærum öryrkja.Ég sjálf var einungis 27 ára gömul, þegar ég varð fyrir slysi og svo óheppin að vera ekki með neina menntun, hafði alltaf unnið líkamlega vinnu,  og hafði ekki sömu möguleika og  margir aðrir til að ganga menntaveginn, og ef að það hefði verið til eitthvert úrræði með endurmenntun "eitthvað tækifæri" í stað þess að þiggja bætur "þá hefði ég tekið því opnum örmum. (Hefði viljað verða lögmaður hí hí )Svona stefnuskrá um endurhæfingaúrræði tel ég að geti bjargað andlegri heill margra, sem annars sjá kannski einungis svartnættið, og svona eins og daninn myndi segja; Að allir verði að hafa markmið í lífi sínu, og tækifæri á að taka nýja stefnu, þótt svo að þeir  séu svo óheppnir að slasast eða veikjast.  (Og þessu er ég sjálf búin persónulega að kynnast, með manninn minn, hann verður endurhæfður til að geta unnið eitthvað annað, en líkamlega vinnu, eftir að hann er búin í sjúkraþjálfun) Og þeir eru þegar byrjaðir að gefa honum ný tækifæri með að setjast á skólabekk og í starfsþjálfun að hluta á meðan hann er í endurhæfingu.

Já já það væri gaman að sjá breytingu á mörgum sviðum, sem kannski kostaði samfélagið minna og gerði fólkið glaðara. Glatt fólk skilar meiru, er það ekki sagt.

Og eins og ég áður hef talað um þá er ekki svo vitlaust að þeir ráðamenn sem snúa að þessu kannski fari að skoða norðurlöndin á þennan hátt, íslendingar geta ekki verið með þetta allt á hreinu hvernig svona er meðhöndlað, bara ef við skoðum munin á mannfjölda, þá hljóta þeir að hafa lært svolítið af reynslunni.

Eða hafa þessir blessaði, ekki neinn tíma fyrir þetta, kannski ætti þetta að verða þeirra næsta sumarleyfi, að fara til norðurlandana og fá einhverskonar starfsþjálfun í að læra hverning á að gera þetta.

Sigríður Ragnarsdottir

Sigríður Ragnarsdóttir, 12.4.2007 kl. 17:36

7 Smámynd: Páll Jóhannesson

Ég undirritaður er öryrki. Til er stjórnmálaflokkur sem hefur á stefnuskrá sinni að leiðrétta kjör öryrkja, vill gera þeim kleyft að komast út á vinnumarkaðinn án þess að refsa þeim í skattakerfinu, hefur auk þess skýra stefnu á því að auka úrræði fyrir þennan hóp í endurhæfingu. 

Þessi flokkur er Samfylkingin, skora á ykkur að lesa stefnuskrána þeirra og ekki síst eftir glæstan landsfund.

Vegna stefnu Samfylkingarinnar í málefnum öryrkja- og aldraða get ég með stolti sett X-við S. Þetta er flokkur sem greinilega ætlar að berjast fyrir bættum hag öryrkja.

MBK Páll Jóhannesson 

Páll Jóhannesson, 17.4.2007 kl. 00:09

8 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Kæri Páll það er rétt hjá þér að Samfylkingin hefur verið með á stefnuskrá að leiðrétta kjör öryrkja en lítið ætlar að verð um efndir þegar flokkurinn er komin í ríkisstjórn og ansi er ég hræddur um að þú hafir sett X á rangan stað ef þú ætlaðir að nýta þitt atkvæði með það í huga að kjör öryrkja verði bætt.

Jakob Falur Kristinsson, 5.9.2007 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband